Ferill 710. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1345  —  710. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.


     1.      Hversu mörg mál hafa komið til skoðunar hjá sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk síðastliðin fimm ár? Svar óskast sundurliðað eftir árum og þeim aðila sem frumkvæði hafði að athuguninni, þ.e. heilbrigðisstofnun eða þjónustuveitandi sjálfur, hinn fatlaði einstaklingur, talsmaður eða réttindagæslumaður o.fl.
    Sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk sinnir meðal annars því hlutverki að taka við og vinna úr tilkynningum um beitingu nauðungar við fatlað fólk, beiðnum um ráðgjöf og gera umsagnir til þjónustuaðila sem hluta af undanþáguferli ef ráðgjöf hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Í ákveðnum tilfellum er óskað beint eftir umsögn þar sem ljóst er að beita þarf nauðung af einhverju tagi til að tryggja öryggi og viðeigandi þjónustu. Nánast undantekningarlaust eru það þjónustuveitendur í búsetuúrræðum sem óska eftir aðkomu sérfræðiteymisins og oftast í samráði við persónulegan talsmann viðkomandi. Aðeins í einu tilfelli hefur heilbrigðisstofnun sent inn beiðni um ráðgjöf.
    Í eftirfarandi má sjá fjölda mála sem borist hafa teyminu sl. fimm ár:

Tilkynningar Beiðni um ráðgjöf Beiðni um umsögn
2019 33 26 3
2020 78 45 13
2021 93 62 5
2022 78 44 9
2023 303 36 18

     2.      Hefur sérfræðiteymið gefið út einhverjar almennar leiðbeiningar og/eða staðið að þjálfun starfsfólks þjónustuveitenda, ýmist að eigin frumkvæði eða í kjölfar atviks sem teymið hefur haft til umfjöllunar?
    Í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk segir í 14. gr. að hlutverk sérfræðiteymis sé að veita þjónustuaðilum og forstöðumönnum ráðgjöf, meðal annars um hvað teljist til nauðungar og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar. Umfram þá fræðslu sem felst í ráðgjöf og samráði við þjónustuveitendur heldur sérfræðiteymið reglulega fræðsluerindi sé eftir því óskað. Sérfræðiteymið er ekki með eftirlitsskyldu hvað þjónustuveitendur varðar og er það því á ábyrgð sveitarfélaga að sjá til þess að starfsfólk hljóti þjálfun og fræðslu um aðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir að nauðung sé beitt. Hluti af ráðgjöf sérfræðiteymis er að mæla með slíkri fræðslu til þjónustuveitenda. Sem dæmi þá héldu starfsmenn sérfræðiteymis 12 fræðsluerindi um nauðung til þjónustuveitenda víðs vegar um landið árið 2023.
    Þess má einnig geta að farin er af stað hugmyndavinna við að útbúa rafrænt kennsluefni með það að markmiði að efla vitund almennings og auka þekkingu fólks á nauðung og sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks. Slíkt efni gætu forstöðumenn og aðrir stjórnendur í þjónustu við fatlað fólk nýtt meðal annars við þjálfun nýs starfsfólks.

     3.      Hversu margar beiðnir um undanþágur hafa komið til umsagnar teymisins síðastliðin fimm ár?
    Eins og fram kemur í töflu hér að framan voru beiðnir um umsagnir sl. fimm ár 48 talsins. Umsagnir leiða þó ekki alltaf til beiðni um undanþágu frá undanþágunefnd. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því eins og að beiting nauðungar eigi ekki lengur við þegar umsögn berst, einstaklingur hefur flutt milli staða eða aðrar breytingar orðið á högum viðkomandi.
    Sérfræðiteymið hefur ekki tölulegar upplýsingar yfir það í hve mörgum tilfellum umsögn er ekki nýtt þar sem afskiptum sérfræðiteymis lýkur alla jafna þegar umsögn er send áfram.